Hægt að eyða milljörðum í að fá erlenda ferðamenn til landsins en ekkert til í buddunni til þess að halda helstu vegum færum!

Nýliðið haust hefur verið heldur misviðrasamt og færð á vegum hefur spillst með stuttu millibili.  Í fréttum hafa verið fregnir af útafakstri bæði lítilla bíla og hópferðabíla.  Ástæðan nánast alltaf flughálka og vindkviður.  Vegir að helstu ferðamannastöðum sunnanlands svo sem Gullfossi, Geysi, Þingvöllum og Suðurströnd hafa aðeins fimm daga þjónustu hjá Vegagerðinni og því treðst allur snjór á þessum vegum niður í klaka.  Svo þiðnar á milli og þá verður snjórinn að blautum flughálum klaka.  Við getum eytt milljörðum í kynningarherferðir um allan heim til þess að lokka fleira og fleira fólk til þess að koma til landsins á öllum árstímum en við getum ekki sett fé í það hjá Vegagerðinni að halda þessum helstu ferðamannavegum öruggum til aksturs.  Farið er með hundruð ferðamanna á þessa vegi á degi hverjum og þeir eru allir í lífshættu þegar aðstæður eru með þeim hætti sem verið hefur undanfarnar vikur.  Það er ekki samhljómur í þessu og taka þarf umræðu um það með hvaða hætti er hægt að bæta úr þessu vandræðaástandi.  Það er ekki nóg að brýna fyrir okkur að aka varlega og eftir aðstæðum og gera svo grín að vitlausu erlendu ferðamönnunum sem álpast út á ófæra vegi.  Við þurfum að taka meiri ábyrgð á þessu ástandi og bregðast við með alvöru aðgerðum sem tryggja öryggi ferðalanganna hvort sem þeir ferðast á eigin vegum eða í hópferðabifreiðum.
mbl.is Víkja lítið frá snjómokstursáætlun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er verið að þrengja um of að heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni ?

Í frétt um fjárhagsörðugleika Heilbrigðisstofnunar Austurlands kristallast að mörgu leyti vandi æði margra heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni. Þeim er ætlað að halda úti þjónustu og áhersla er lögð á að skera ekki svo niður að íbúar kveinki sér sáran. Velferðarráðuneytið lýsir sig gjarnan saklaust af því þegar þjónusta er skert og lætur stjórnendum það eftir að standa frammi fyrir sársaukafullum ákvörðunum. Í mörgum tilfellum er hreinlega ekki hægt að skera niður eins og allt of naumar fjárveitingar krefjast. Þá verður til hallarekstur og viðkomandi stjórnendur sitja uppi með vandann og aðfinnslur frá Ríkisendurskoðun. Það er nauðsynlegt við gerð fjárlaga og veitingu fjárheimilda að ráðuneyti og pólitískir fulltrúar (sem eru kjörnir til þess að taka ákvarðanir og standa ábyrgir fyrir þeim) ákveði heimildarnar í samræmi við þá þjónustu sem krafist er að veitt verði. Annað er skollaleikur sem ekki gengur upp.
mbl.is Fjármögnuðu rekstur með yfirdrætti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er búið að gera of mikið fyrir fólk????

Í hvaða landi skyldi ríkisstjórn Íslands búa? Eftirfarandi er haft eftir velferðarráðherranum í Mbl. í dag: "„Það sem þeir eru að segja er að það sé þegar búið að gera of mikið fyrir fólk eða að því hafi verið gefnar of miklar væntingar, en það finnst mér afar jákvæð umsögn."

Þarna er hann að vitna í umsögn forstjóra FME sem hefur áhyggjur af því að skuldsettu fólki hafi verið gefnar of miklar væntingar um leiðréttingar á stökkbreyttum lánum sem hafa valdið almenningi ómældum vandræðum undanfarin fjögur ár. Fólkið er í vandræðum og vonast eftir lagfæringum sem líklega verða ekki því allt of mikið var gert úr áhrifum af dómi hæstaréttar um vaxtaleiðréttinguna. Látið var að því liggja að allir sem skulda þessi stökkbreyttu lán, sem upphaflega voru með gengisviðmiðun, væru að fá stórfellda niðurfellingu af núverandi höfuðstól þeirra. Fólkið bíður og vonar en ólíklegt er að vonirnar rætist eins og forstjórinn bendir á.

Þetta kallar ráðherrann að búið sé að gera of mikið fyrir fólk í þessu landi og að þessi ummæli séu afskaplega jákvæð fyrir ríkisstjórnina. Annað hvort þarf ég að fá nýja þýðingu á ummælum forstjóra FME eða á ummælum ráðherrans sem mér finnst vera algjörlega út úr kú.


Þarf að breyta fjárhagsáætlunum allra sveitarfélaga með of háa skuldastöðu?

Í þessari frétt er það talið sjálfgefið, að því er virðist, að öll sveitarfélög sem eru með heildarskuldastöðu yfir 150% af áætluðum tekjum ársins, þurfi að breyta fjárhagsáætlunum sínum. Þetta kann að eiga við einhver þeirra, en önnur hljóta að hafa gert áætlanir með það fyrir augum að ná skuldastöðu sinni niður á því tíu ára tímabili sem gefið er til þess í nýjum sveitarstjórnarlögum. Öllum eiga að vera kunn ákvæði laganna og að þau hafa tekið gildi. Hluti þessara sveitarfélaga er þegar með áætlanir um að skuldastaðan verði komin inn undir þetta þak löngu áður en tíu ára aðlögunartímabilið er liðið. Þau sveitarfélög þurfa væntanlega ekki að breyta fjárhagsáætlunum sínum. Þau þurfa hins vegar að árétta áætlanir sínar við eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga og hugsanlega að gera nánari grein fyrir þeim. Blaðamönnum kann að vera nokkur vorkunn í túlkum á því sem frá eftirlitsnefndinni kemur, því það er ekki ætíð auðlesið af texta bréfanna að þessi aðlögun eigi að gerast á tíu árum en ekki þegar í stað. Til þess að átta sig á þessu þarf að lesa bréf nefndarinnar í heild og þekkja til ákvæða sveitarstjórnarlaganna. Það væri mikill kostur ef einhverjir fjölmiðlar hefðu fréttamenn með sérþekkingu í málefnum sveitarfélaga. Umfjöllun um málefni þeirra yrði þá væntanlega mun markvissari en nú er. Þó má alls ekki skilja þessi orð þannig að allt sé brenglað sem í fjölmiðlum stendur um málefni sveitarfélaga. Margt er gott en alltaf má bæta.
mbl.is Þurfa að endurskoða fjárhagsáætlanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsetning frétta í fréttatímum Ríkisútvarpsins getur verið gagnrýniverð

Auðvelt er að skilja það að bæjarstjóranum í Kópavogi hafi brugðið við þegar gefið var í skyn í inngangi fréttar um skuldastöðu 3ja sveitarfélaga að þau væru að brjóta lög. Í sjálfu sér er hægt að standa á því að þessi sveitarfélög og reyndar mörg önnur, uppfylli ekki ákvæðin um að hlutfall skulda af tekjum megi ekki vera hærra en 150%. Því var sleppt í innganginum að í lögunum er einnig gefinn 10 ára aðlögunartími fyrir sveitarfélög til þess að uppfylla þetta ákvæði þannig að ekki er um nein lögbrot að ræða ennþá. Þetta og fleira kom fram í fréttinni þannig að Ríkisútvarpið myndi væntanlega "standa við fréttina" eins og algengt er á þeim bæ að segja. Það skiptir mjög miklu máli að inngangur frétta á ljósvakamiðlum sé hlutlægur og réttur. Framsetning eins og Ríkisútvarpið viðhafði í þessari frétt er algengur og spyrja má hver sé tilgangurinn? Ef engu hefði verið hallað á sveitarfélögin hefði komið fram strax í innganginum að ekki væri um lögbrot þessara sveitarfélaga að ræða ennþá, en að hlutfall skuldanna væri yfir þeim mörkum sem lögin stefna á að muni nást innan tíu ára. Getur verið að þá hefði ekki verið spennandi að segja fréttina? Hefði broddurinn farið úr? Getur verið að frekar sé reynt að senda spjót í síðu þeirra sem fjallað er um frekar en að fara nákvæmar með málefnin? Ég veit það ekki, en framsetning af þessu tagi er nokkuð algeng. Þetta er gjarnan gert með þessum hætti, þ.e. inngangurinn er þannig að undan svíður en svo koma fram atriði í fréttinni sem draga allan broddinn úr innganginum. Gallinn er sá, að þá er allstór hluti hlustenda ekki lengur með athyglina á fréttinni og innihaldið fer fyrir ofan garð og neðan og aðeins situr eftir skekkt mynd af málefninu. Skyldi þetta nokkuð vera gert meðvitað?
mbl.is Erum ekki að brjóta lög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áríðandi að málflutningur sé réttur og vandaður

Við lestur á frétt um erindi Rúnars Halldórssonar, félagsráðgjafa um upplifun hans af "Bestu útihátíðinni" sem haldin var síðasta sumar fannst mér nauðsynlegt að koma að örlitlum ábendingum. Rúnar virðist hafa fjallað um sveitarfélagið sem leyfisveitanda. Sveitarfélög eru ekki leyfisveitendur í þessum tilfellum nema þau leigi land undir viðkomandi atburð en þá nær leyfisveiting þeirra eingöngu til þess að nota megi tiltekið land ef leyfi fást fyrir viðkomandi atburði. Sýslumenn eða lögreglustjórar veita leyfin en fá umsagnir frá sveitarstjórnum og fleiri aðilum. Í þessu tilfelli gerði sveitarstjórnin kröfu um að fyllsta öryggis mótsgesta yrði gætt í hvívetna auk þess að allar eðlilegar reglur um útivist og aldursmörk yrðu virt. Þegar umsögnin var veitt var sveitarstjórnin fullvissuð um að allt myndi verða gert af hálfu mótshaldara, lögreglu og annarra viðbragðsaðila til þess að farið yrði eftir ströngustu kröfum um aldur mótsgesta og öryggis þeirra. Sjálfur var ég í "Bestu vegahátíðinni", þ.e. ég var á veginum þar sem umferðin stöðvaðist nánast í þrjár klst. í upphafi hátíðarinnar vegna þess hversu aðsóknin var mikil. Ekki fór hjá því að við þessi fullorðnu sem ekki vorum á leiðinni á hátíðina sæjum unga fólkið sem var á leið þangað. Það var mikið fjör og bjórinn kneifaður nokkuð stíft. Engin börn á aldrinum 12 - 13 ára voru sjáanleg í þeim hópum. Ég bý á Hellu og var heima við alla þessa helgi. Engin drukkin börn á aldrinum 12 - 13 ára sá ég alla helgina enda hefðu bæði ég og aðrir brugðist hart við slíku. Ég sá glaðvær ungmenni á leið til og frá verslunum og veitingastöðum. Viskí hef ég reyndar ekki séð hjá ungmennum sem eru að skemmta sér í nokkra áratugi. Bjór, Breezer og álíka er það sem þau sjást hafa um hönd. Frásögn Rúnars er að þessu leyti afar framandi fyrir mig sem þó horfði á atburðina um leið og þeir voru að gerast. Sjálfsagt er og rétt að taka vel á þessum atriðum öllum, tryggja öryggi allra mótsgesta, tryggja að engin börn undir 18 ára aldri séu með og að löggæsla og önnur gæsla sé í hámarki. Nauðsynlegt er að nálgast þessi mál út frá staðreyndum í öllum tilfellum, þá náum við bestum árangri að mínu mati.
mbl.is Guttar veifandi viskípelum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skert lýsing - skert umferðaröryggi?

Vegagerðin er að skerða lýsingu á Reykjanesbrautinni um helming. Þetta gamla baráttumál Suðurnesjafólks og annarra sem þurfa að aka Reykjanesbrautina er þar með endurvakið með því að stofnunin ætlar að ganga gegn fyrri ákvörðunum sem reyndar voru teknar í hennar óþökk. Vegagerðin hefur almennt verið á móti því að lýsa upp þjóðvegi utan þéttbýlis þó aldrei hafi verið hægt að rökstyðja það með öðru en að ljósastaurarnir sjálfir kunni að valda hættu við útafakstur og að "sumum" þyki óþægilegt að aka á upplýstum vegum. Ég hef reynslu af því að aka bæði á upplýstum vegum og óupplýstum í yfir 40 ár og þarf ekki neinna vitna við um það að upplýstir vegakaflar eru margfallt öruggari og þægilegri til aksturs við hvaða skilyrði sem er. Í skafrenningi er t.d. hægt að sjá útlínur vega og hvort einhverjar hindranir svo sem aðrir bílar séu á veginum ef lýsing er á viðkomandi stað. Það kostar að lýsa upp þjóðvegi utan þéttbýlis en hvað kosta slys á fólki og tjón á ökutækjum? Þarf ekki að reyna að ná einhverri sátt um þetta, jafnvel þó hart sé í ári um þessar mundir?
mbl.is Dimmir yfir Reykjanesbraut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um bloggið

Guðmundur Ingi Gunnlaugsson

Höfundur

Guðmundur Ingi Gunnlaugsson
Guðmundur Ingi Gunnlaugsson
Verkefnisstjóri
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband